Birkiland - Frístundabyggğ - sælureitur í sveitinni

Hverfjall: Hverfjall/Hverfell er stór, hringlaga sprengigígur, um 140 m djúpur og um 1000 m í þvermál. Hverfjall/Hverfell er í röð fegurstu

Fróğleikur


Hverfjall:
Hverfjall/Hverfell er stór, hringlaga sprengigígur, um 140 m djúpur og um 1000 m í þvermál. Hverfjall/Hverfell er í röð fegurstu og reglubundnustu sprengigígamyndana sem getur að líta á Íslandi og tali í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Telja má víst að gígurinn sé myndaður við sprengigos og er aldur þess áætlaður 2500 ár. Vinsælt er að ganga á Hverfjall/Hverfell en auðveld og aflíðandi leið liggur upp að norðvestan. Að sunnan er hins vegar allbrött leið á fjallið.

Grjótagjá og Stórugjá:
Grjótagjá er einn þekktasti hellir landsins, hálffullur af heitu vatni og var lengi vel vinsæll baðstaður. Við jarðhræringarnar á þessum slóðum á árunum 1975-1984 hækkaði hitastig vatnsins svo mjög að ekki hefur verið hægt að baða sig þar síðan.
Stóragjá er jarðsprunga með heitu vatni, skammt sunnan við þorpið Reykjahlíð. Gjáin tók við sem baðstaður af Grjótagjá eftir að hún hitnaði sökum eldsumbrota. Ekki er þó mælst til þess að fólk baði sig þar sökum óhreininda vegna hægra vatnsskipta.

Dimmuborgir:
Dimmuborgir eru sundurtættar hraunmyndanir með gróðri og kjarri sem vart eiga sinn líka. Talið er að þær hafi myndast í fornri hrauntjörn sem tæmst hefur eftir að storknun hraunsins var nokkuð á veg komin. Eftir standa háir hraundrangar sem taka á sig ótrúlegustu kynjamyndir. Gatklettar og smáhellar einkenna borgirnar. Sá frægasti er líklega Kirkjan, há og mikil hvelfing, opin í báða enda.
Mikil jarðvegseyðing hefur orðið austan Mývatns og var gróður og landslag í Dimmuborgum um tíma í hættu vegna sandfoks. Unnið er að uppgræðslu og hefur nú nokkur árangur náðst við að stöðva fokið.

Lúdent og Þrengslaborgir:
Lúdentarborgir eru gígaröð austur af Mývatni. Þær eru framhald af Þrengslaborgum og hafa gosið samtímis þeim. Borgirnar draga nafn af sprengigígnum Lúdent sem er skammt norðaustan við þær. Fyrir tunglferð Appolóferjunnar 1969 voru geimfararnir m.a. þjálfaðir í Lúdentarborgum.
Þrengslaborgir eru gígaröð norður frá Bláfjalli. Hraunið þaðan, Laxárhraun yngra, hefur runnið yfir miðhluta Mývatnssveitar, Syðriflóa, niður Laxárdal og langt norður eftir Aðaldal. Hraunið er talið um 2000 ára gamalt, jafn gamalt Mývatni í núverandi mynd.

Námafjall:

  Jarðhitasvæðið við námafjall er eitt fjölsóttasta hverasvæði á Íslandi. Þétt sprungubelti liggur yfir allt Námafjallssvæðið og er meginuppstreymið austan við fjallið. Það hefur á síðari árum gengið undir nafninu Hverarönd. Hverarönd var hins vegar upprunalega nafn á grasspildu austur af hverunum. Hverarönd var hins vegar upprunalega nafn á grasspildu austur af hverunum. Mikil hveravirkni er á Hverarönd, bæði gufu- og leirhverir, en engir vatnshverir. Leirhverirnir eru áberandi stórir og vekja yfirleitt mikla athygli ferðalanga. Gufuhverirnir eru hins vegar margir hverjir ekki annað en borholur sem búið er að hlaða grjóti yfir. Á háhitasvæðinu er jarðvegurinn ófrjór og gróðurlaus en vegna áhrifa hveraloftsins er hann mjög súr. Talsverð brennisteinsútfelling er frá hverunum og var verulegt brennisteinsnám við Námafjall fyrr á öldum. Auðguðust eigendur Reykjahlíðar mjög á sölu brennisteins á miðöldum en hann var notaður í púðurgerð. Jarðhitasvæðið var, eins og Skútustaðahreppur allur, friðlýst árið 1974. Ástæða er til að vara fólk við ótraustum jarðvegi og háum hita.

Kröflusvæðið:

Eldvirkni hefur verið mikil á Kröflusvæðinu á nútíma og eldar verið uppi um 20 sinnum. Vestur af Kröflu er Leirhnjúkur en svæðið umhverfis er megineldstöð. Fyrir um 100 þúsund árum va þarna eldkeila sem gaus miklu gosi en seig að því loknu ofan í sjálfa sig. Askjan sem þá myndaðist er nú barmafull af síðari tíma gosefnum svo að landið er slétt yfir að líta. Undir er þó kvikuhólf á þriggja km dýpi. Tvisvar sinnum á síðustu öldum hafa orðið mikil eldsumbrot á Kröflusvæðinu. Mývatnseldar 1724-1729 og í síðara skiptið svokallaðir Kröflueldar 1975-1984. Í Leirhnjúki má sum staðar ennþá finna hitann í nýjasta hrauninu, en þar eru jafnframt miklar brennisteinsnámur og litadýrð víðast hvar mikil.

Vindbelgjarfjall:

Vindbelgjarfjall er móbergshnjúkur (529 m) sem stendur stakur. Fjallið er lítil gosmyndun undan ísaldarjökli sem líklega hvarf af landinu fyrir um það bil 10 þúsund árum. Einhvern tíma á tímabilinu fyrir 10.000 árum til 120.000 árum gaus undir nokkur hundruð metra þykkum jökli en gosefnahrúgan náði ekki upp úr ísnum. Þegar jökullinn hvarf, stóð keilumyndað móbergsfjall eftir, um 250 m yfir næsta umhverfi sitt. Þaðan er einstakt útsýni yfir Mývatn og nágrenni. Vindbelgjarfjall er oft kallað Vindbelgur en það heiti á í raun aðeinsvið býli við Mývatn. Í munni Mývetninga heitir fjallið einfaldlega Belgjarfjall.

Höfði:

Höfða var sumarbústaður Héðins Valdimarssonar (1892-1948), eins af forystumönnum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Höfði er nú í eigu Mývetninga, gefinn af erfingjum Héðins. Þar hefur fallegur skógur verið ræktaður og er þar nú útivistarsvæði

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf